Greiðsluafkoma ríkissjóðs fyrstu átta mánuði ársins hefur verið birt af fjármála- og efnahagsráðuneyti. Samkvæmt greiðsluuppgjörinu var tekjujöfnuður ríkissjóðs jákvæður um 13,4 milljarða á tímabilinu á greiðslugrunni.

Athygli vekur að innheimtar tekjur ríkissjóðs á fyrstu átta mánuðum ársins hafa aukist um ríflega 100 milljarða frá árinu 2010 og hafa hækkað um tæpa 55,8 milljarða sé árið í ár borið saman við 2013. Innheimtar tekjur eru því 10% yfir tekjuáætlun sem var gerð fyrir árið 2014. "Frávikið skýrist af því að úttekt séreignarsparnaðar á árinu hefur verið meiri en búist var og jafnframt hefur vöxtur vinnuaflseftirspurnar og launa á fyrri hluta ársins verið meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir," segir í uppgjörinu.

Að sama skapi hafa útgjöld aukist mikið á milli ára, eða um 21,5 milljarða.

Lántökur á árinu hafa verið mun meiri en í fyrra en helst ber þar að nefna 750 milljón evra skuldabréfaútboð ríkissjóðs sem var tekið til að forgreiða lán sem Norðurlönd veittu Íslendingum vegna efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda og AGS frá árinu 2008. Áætlað er að lántakan spari um milljarð á ári í vaxtagjöld.