Tekjur ríkissjóðs á fyrstu fimm mánuðum ársins voru 33 milljörðum hærri en á sama tíma í fyrra. Gjöld jukust um 17,4 milljarða milli ára. Í tilkynningu fjármálaráðuneytisins um greiðsluuppgjör segir að niðurstaðan sé betri en gert var ráð fyrir. Handbært fé frá rekstri var neikvætt um 15,1 milljarð en búist var við að það yrði neikvætt um 37,9 milljarða.

Skýringin er sögð breyting á greiðsludreifingu útgjalda. Handbært fé á sama tíma 2011 var neikvætt um 21,7 milljarða. Tekjur á tímabilinu jukust um 19% milli ára en að hluta til má rekja það til óreglulegra tekna sem féllu til á tímabilinu.