Tekjur ríkissjóðs hafa aldrei verið hærri en þær verða á næsta ári, en samkvæmt fjárlögum  munu þær vera um 1.040 milljarðar króna. Þetta er í fyrsta skipti sem tekjur ríkissjóð ná yfir billjón krónur, en stöðugleikaframlag spilar stóran part í tekjum á næsta ári. Að frádregnu stöðugleikaframlögum þá nema tekjur ríkissjóðs rúmlega 700 milljörðum.

Gjöld samkvæmt fjárlögum eru áætluð 694 milljarðar og er því gert ráð fyrir um 350 milljarða afgangi af fjárlögum. Afgangur er áætlaður tæplega sjö milljarðar króna ef stöðugleikaframlag er dregið frá.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir í samtali við Morgunblaðið að stöðugleikaframlaginu verði ekki varið öðru vísi en að lækka skuldir ríkisins og létta þannig á vaxtabyrði ríkisins til framtíðar. Bjarni sagði einnig að afgangur á fjárlögum skapi einstakt tækifæri til að losa um fjármagshöft og styrkja stöðu ríkisfjármála til lengri tíma.