Samkvæmt endurskoðaðri tekjuáætlun efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs verði 469 milljarðar króna árið 2008. Það er hækkun upp á 8,2 milljarða frá upprunalegu fjárlagafrumvarpi.

Meirihluti fjárlaganefndar hefur skilað nefndaráliti sínu um frumvarpið og gerir breytingartillögur á útgjaldalið frumvarpsins upp á 1,3 milljarð króna.

Margar breytingartillögur eru gerðar á fjárlagafrumvarpinu. Þá er meðal annars lögð til 440 milljóna króna hækkun á framlagi til fæðingarorlofssjóð, rúmlega 94 milljóna aukaframlag til Landhelgisgæslunnar meðal annars vegna eflingu þyrlusveitar gæslunnar og 170 milljónir til eflingar á fiskeldi svo eitthvað sé nefnt.

Á sama tíma eru framlög til byggingu hátæknisjúkrahúss lækkuð um 700 milljónir fyrir næsta ár þar sem talið er að bygging þess fari ekki jafn hratt af stað eins og áætlað hafi verið.

Önnur umræða um fjárlagafrumvarpið fer fram í dag.