Eftir fyrstu 9 mánuði ársins er handbært fé frá rekstri ríkissjóðs 19,2 milljarðar króna, en var 48,6 milljarðar á sama tíma í fyrra. Innheimtar tekjur ríkissjóðs voru 11,6 milljörðum hærri á fyrstu 9 mánuðum þessa árs en á sama tíma í fyrra, og námu 332 milljörðum króna.

Þetta kemur fram í greiðsluuppgjöri ríkissjóðs sem liggur nú fyrir.

Hreinn lausafjárjöfnuður ríkiskassans er jákvæður um 27,7 milljarða króna, sem er 45,6 milljörðum betri útkoma en í fyrra.

Af 332 milljarða innheimtum tekjum námu skatttekjur og tryggingagjöld 302 milljörðum króna, sem samsvarar 3,6% aukningu að nafnvirði milli ára. Á sama tíma hefur vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkað um 9,9% og hafa skatttekjur og tryggingagjöld því dregist saman um 5,8% að raunvirði.

Aðrar tekjur ríkissjóðs jukust um 4,1% og munar þar mest um 91,2% hækkun á vaxtatekjum af bankainnistæðum.

Greidd gjöld ríkissjóðs á fyrstu níu mánuðum ársins nema 318,6 milljörðum króna og voru gjöldin 49,9 milljörðum hærri nú en í fyrra. Mest aukning milli ára er vegna almannatrygginga- og velferðarmála, 14,3 milljarðar.

Frá þessu er greint í vefriti Fjármálaráðuneytisins.