Skattekjur ríkissjóðs hækkuðu um 14,3% að raunvirði á fyrri helmingi ársins frá sama tíma fyrir ári. Í heild námu innheimtar tekjur 165,5 milljörðum og hækkuðu um 32 milljarða á milli ára.

Greiðsluuppgjör ríkissjóðs fyrir fyrri helming ársins liggur nú fyrir. Samkvæmt uppgjörinu er breyting á handbæru fé frá rekstri jákvæð um 15,5 milljarða króna á tímabilinu, sem er 26 milljörðum króna betri útkoma heldur en áætlað var. Einnig er útkoman 17,8 milljörðum betri en á sama tíma í fyrra. Tekjurnar hækka um 32 milljarða, á meðan að gjöldin hækka um 13,5 milljarða. Hreinn lánsfjárjöfnuður er jákvæður um 25,9 milljarða króna miðað við 0,9 milljarða neikvæða stöðu í fyrra.

Innheimtar tekjur ríkissjóðs á tímabilinu janúar til júní 2005 námu 165,5 milljörðum króna og hækkuðu um 32 milljarða frá sama tíma í fyrra, eða um tæp 24%. Þar af námu skatttekjur ríkissjóðs um 148 milljörðum króna sem er hækkun um 18,7% frá sama tíma í fyrra, og er það nokkru meira en gert var ráð fyrir í áætlunum. Á sama tímabili hækkaði almennt verðlag um 3,9% þannig að skatttekjur hækkuðu að raungildi um 14,3%.

Skattar á tekjur og hagnað námu 48,7 milljörðum króna á tímabilinu sem er 15,5% hækkun frá fyrra ári.Þar af hækkuðu tekjur af tekjuskatti einstaklinga um 10,3% en skatttekjur vegna lögaðila drógust saman um 1%. Tekjur af fjármagnstekjuskatti jukust umtalsvert á milli ára, eða um 54% sem rekja má til aukinna fjármagnstekna af arði og vaxtatekjum. Innheimta tryggingagjalda á tímabilinu nam rúmlega 15,5 milljörðum króna sem er 15,7% aukning frá fyrra ári. Til samanburðar má geta þess að launavísitala Hagstofunnar hækkaði um 6,5% á sama tímabili. Innheimta eignarskatta jókst einnig töluvert á milli ára, eða um 51% að raungildi en sú aukning endurspeglar að mestu aukna innheimtu stimpilgjalda. Aðrar rekstrartekjur námu 17 milljörðum króna og jukust um 8,3 milljarða milli ára sem skýrist einkum af arðgreiðslum frá Landssímanum og sektargreiðslum olíufélaganna.

Veltuskattar ríkissjóðs jukust einnig miðað við sama tímabil í fyrra, eða um 18,6% sem er 14,1% aukning að raungildi en þar munar mestu um innheimtu tekna af virðisaukaskatti sem jókst um 21%. Vörugjöld af ökutækjum skiluðu jafnframt töluvert meiri tekjum inn en í fyrra en þau jukust um 76,3% milli ára.

Greidd gjöld námu 151,9 milljörðum króna og hækkuðu um 13,5 milljarða frá fyrra ári, en þar af skýrast 5,7 milljarðar af hækkun vaxtagreiðslna þar sem stór flokkur spariskírteina kom til innlausnar í apríl. Að vöxtum frátöldum hækka gjöldin um 6% milli ára. Útgjöld til félagsmála, þ.e. vegna almannatrygginga, fræðslu- og heilbrigðismála, vega langþyngst í útgjöldum ríkissjóðs, eða 96 milljarðar sem er 63%. Þar kemur fram 6,2 milljarða króna hækkun, eða 6,9%. Innan málaflokksins munar mest um hækkun til heilbrigðismála, 3,8 milljarða og 2,5 milljarða vegna fræðslumála. Á móti vegur að greiðslur vegna almannatrygginga lækka lítillega og greiðslur til atvinnumála standa nánast í stað milli ára.

Lánahreyfingar. Afborganir lána námu 30 milljörðum sem skiptast þannig að 16,2 milljarðar eru vegna afborgana erlendra langtímalána og 13,7 milljarðar vegna spariskírteina. Lántökur námu samtals 9,6 milljörðum króna, 5,3 milljarðar innanlands í formi ríkisvíxla og ríkisbréfa og 4,3 milljarðar í erlendum skammtímalánum. Þá voru 1,9 milljarðar greiddir til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins í því skyni að lækka framtíðarskuldbindingar sjóðsins. Handbært fé ríkissjóðs jókst um 3,6 milljarða frá áramótum fram til júníloka.