Innheimtar tekjur ríkissjóðs árið 2007 námu 452,7 milljarði króna sem er 18,7% aukning frá fyrra ári.

Þar af námu skatttekjur og tryggingagjöld 395,7 milljarði króna sem er 11,7% aukning frá fyrra ári og samsvarar raunaukningu um 6,4% miðað við hækkun almenns verðlags.

Aðrar rekstrartekjur aukast um 43,2% en þær skýrast einkum af vaxtatekjum og sölu vöru og þjónustu.

Skattur af fjármagnstekjum jókst um tæp 52%

Skattar á tekjur og hagnað námu 144,6 milljarði króna sem nemur 14,6% aukningu frá árinu 2006. Þar af vegur tekjuskattur einstaklinga mest og nam hann 84,1 milljarði króna og jókst um 7,5% frá fyrra ári.

Tekjuskattur lögaðila nam 35,4 milljarði króna, eða sem samsvarar 12,7%, sem er fremur hóflegur vöxtur miðað við öran vöxt í tvö ár þar á undan. Skattur af fjármagnstekjum nam 25,2 milljarði króna. og jókst um 51,7% á árinu.

Eignarskattar jukust um 27,7% á árinu og námu 11,7 milljarði króna, þar af námu stimpilgjöld 9,3 milljarði króna.

Tekjur vegna tolla og aðflutningsgjalda jukust um 26,9% á milli ára og námu 5,3 milljarði króna og innheimt tryggingargjöld jukust um 5,2% og námu 39,2 milljarði króna.

Þá voru tekjur af sölu eigna alls 20 milljarðar króna á árinu en þar af voru bókfærðir 12,8 milljarðrk róna í desember vegna sölu mannvirkja á fyrrum varnarsvæðinu við Keflavíkurflugvöll.