Rolls-Royce hefur sent frá sér viðvörun þess efnis að tekjur félagsins muni dragast saman, meðal annars vegna viðskiptaþvingana gegn Rússlandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Fyrirtækið sérhæfir sig í byggingu hreyfla fyrir flugvélar og skip. Viðskiptaþvinganir gegn Rússum hafi hins vegar haft í för með sér að viðskiptavinir þaðan hafi hætt við eða frestað pöntunum sínum til félagsins. Segir í tilkynningu frá félaginu að það hafi þó dregið umtalsvert úr kostnaði til að mæta þessum tekjumissi, og undirliggjandi hagnaður fyrirtækisins muni haldast.

Fyrirtækið býst við því að tekjur þess á árinu 2014 muni dragast saman um 3,5% til 4%. Segir fyrirtækið einnig að það sé fyrirséð að reksturinn árið 2015 verði erfiðari en búist hafði verið við vegna aðstæðna á markaði.