Írska lággjaldaflugfélagið Ryanair hagnaðist um 211 milljónir evra á fjórða ársfjórðungi. Til samanburðar tapaði félagið 96 milljónum evra á sama tíma árið 2021. Þetta kemur fram í grein hjá The Times.

Helstu keppinautar Ryanair töpuðu á fjórðungnum sem var að líða. EasyJet tapaði 151 milljónum evra og þá tapaði Wizz Air 155 milljónum evra.

Ryanair stendur sig einnig vel í samanburði við gengi félagsins fyrir faraldur. Tekjur félagsins jukust um 25% á nýliðnum fjórðungi samanborið við sama fjórðung árið 2019, fóru úr 1,85 milljónum evra upp í 2,31 milljónir evra. Þá fjölgaði farþegum félagsins úr 35,9 milljónum í 38,4 milljónir.

Þar að auki hækkuðu flugfargjöld félagsins um 14% á milli tímabila, en hver seldur flugmiði var seldur á 60 evrur að meðaltali á fjórðungnum samanborið við 53 evrur á sama tíma árið 2019.

Ryanair er með stærstu markaðshlutdeildina á breskum flugmarkaði, eða 22%. Félagið íhugar nú innrás á skandinavíska og spænska flugmarkaðinn, að því er kemur fram í grein The Times.