*

laugardagur, 6. júní 2020
Innlent 17. september 2019 13:20

Tekjur Stundarinnar jukust um fjórðung

Rekstrartekjur útgáfufélagsins Stundin ehf. nam tæpum 170 milljónum króna á síðasta ári og hagnaður var 10 milljónir króna.

Ritstjórn
Jón Trausti Reynisson og Ingibörg Dögg Kjartansdóttir eru ritstjórar Stundarinnar.
Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Tekjur útgáfufélagsins Stundin, sem gefur út vikublað undir sama heiti, jukust um fjórðung á síðasta ári frá árinu 2017. Samtals námu tekjur af sölu félagsins tæpum 180 milljónum króna í fyrra í samanburði við tæpar 145 milljónir króna árið 2017. Rekstrargjöld voru samtals tæpar 170 milljónir króna miðað við 138 milljónir árið á undan. Útgáfukostnaður var tæpar 60 milljónir króna og launakostnaður nam 91 milljón króna. Rekstrarhagnaður var 9,3 milljónir króna miðað við 6,5 milljónir árið 2017. 

Hagnaður ársins nam 10,5 milljónum króna í fyrra sem er fjórum milljónum meira en árið 2017.

Samkvæmt efnahagsreikningi námu eignir félagsins tæpum 32 milljónum króna undir lok síðasta árs, en voru árið á undan 20,6 milljónir. Munar þar mestu um að veltufjármunir jukust um 10 milljónir króna milli ára, upp í 28,6 milljónir króna. 

Eigið fé nam 18,8 milljónum króna sem er um 10 milljónum meira en árið á undan .Skuldir félagsins voru tæpar 13 milljónir og jukust um 700 þúsund milli ára.

Árið 2018 voru 10,7 stöðugildi hjá félaginu og heildarlaunagreiðslur námu tæpum 70 milljónum króna.

Í fréttatilkynningu frá útgáfunni er afkoman sögð í samræmi við markmið Stundarinnar um að forðast hallarekstur og skuldsetningu. „Helsta markmið félagsins er starfræksla óháðrar fjölmiðlaritstjórnar og forsenda þess er sjálfbær rekstur. Í því skyni verður haldið áfram að leggja höfuðáherslu á rekstur án halla eða skuldsetningar og mun umfang starfseminnar helst stýrast af stuðningi almennings með kaupum á áskrift,“ segir í skýrslu stjórnar sem fylgir ársreikningi félagsins. 

Jón Trausti Reynisson er framkvæmdastjóri útgáfunnar, annar ritstjóri blaðsins og einn stærsti hluthafi félagsins (með 12,4% eignarhlut). Hann segir í tilkynningunni að meirihluti tekna Stundarinnar sé vegna áskrifta. „Við erum þakklát fyrir að stærsti hluti rekstrartekna Stundarinnar spretti frá almennum borgurum sem hafa kosið að gerast áskrifendur. Þetta tryggir að rekstrarlegir hagsmunir Stundarinnar eru sem mest í samhengi við hagsmuni almennings,“ er haft eftir Jóni Trausta í tilkynningu frá félaginu. 

Þá er greint frá því að ný stjórn hafi verið kjörin nýverið á aðalfundi útgáfufélagsins. Við stjórnarkjörið hafi verið litið til þess að styrkja formlegt aðhaldshlutverk stjórnarinnar gagnvart starfsmönnum sem jafnframt séu eigendur, Nýr stjórnarformaður, Elín G. Ragnarsdóttir og með henni í stjórn eru Höskuldur Höskuldsson og Egill Sigurðarson.