Hagnaður Síldarvinnslunnar á öðrum ársfjórðungi var 18,7 milljónir dollara, jafngildir 2,6 milljörðum króna, samanborið við 31,6 milljónir dollarar á sama tíma 2021. Þá námu rekstrartekjur í lok júní 167,7 milljónum dollara sem jafngildir 23 milljörðum króna. Þá námu rekstrartekjur á öðrum ársfjórðungi 67,1 milljónum dollara og jukust um 42,5% miðað við sama tíma í fyrra.

Þá jókst rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) á öðrum ársfjórðungi um 10,5 milljónir dollara á milli ára.

Hagnaður fyrri árshelmings nam 46,2 milljónum dollara sem jafngildir 6,4 milljörðum króna.

Þá nema eignir félagsins 728,8 milljónum dollara í lok júní samanborið við 634 milljónir dollara árið áður. Bókfært virði eigin fjár nam 440,6 milljónum dollara í lok júní og nemur eiginfjárhlutfall félagsins 60,5%. Heildarskulidr voru 288,2 í lok júní og hækkuðu um 76,6 milljónir dollara frá áramótum.

Fyrr í sumar festi Síldarvinnslan kaup á 34,2% hlut í Artic Fish Holding AS. Kaupverðið nam 1.089 milljónir norskra króna eða sem nemur 14,8 milljörðum íslenskra króna á dagsgengi þess dags er kaupin voru tilkynnt (10. júní 2022).

Sjá einnig: SVN kaupir í Artic Fish fyrir 15 milljarða

Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar:

„Reksturinn gekk vel á öðrum ársfjórðungi og var kolmunnaveiðin með besta móti. Framleiðsla í fiskimjölsverksmiðjum félagsins gekk vel og eru verð fyrir mjöl og lýsi sögulega há og útlit gott fyrir sölu. Sala loðnuafurða gekk vel á fjórðungnum og var afhent mikið af framleiðslu vetrarvertíðarinnar.

Það er lítilsháttar samdráttur bolfiskmegin þar var skip í slipp og svo er kvótasamdráttur að hafa áhrif.

Nú á sumarmánuðum tilkynnti Hafrannsóknastofnun um ráðgjöf á helstu nytjastofnum í íslensku lögsögunni. Heilt yfir verður ráðgjöfin að teljast vonbrigði vegna áframhaldandi niðurskurðar í þorski og karfa. Fyrir Síldarvinnsluna vegur aukning á ýsuheimildum að hluta upp á móti skerðingum í öðrum bolfisktegundum. Það er jákvætt að sjá kvóta í íslensku síldinni sterkan annað árið í röð en stofninn virðist vera að ná sér vel á strik eftir sýkingar undanfarinna ára. Upphafsmælingar í loðnu gefa góð fyrirheit fyrir vetrarvertíð 2023 en bíða þarf ráðgjafar fyrir deilistofna til haustsins.

Síldarvinnslan tilkynnti í júní um kaup á 34,2% hlut í félaginu Arctic Fish en með þessum kaupum stígur Síldarvinnslan skref inn í laxeldi. Síldarvinnslan er þó ekki ókunn iðnaðnum enda var félagið á árum áður með laxeldi í Mjóafirði ásamt því að Fóðurverksmiðjan Laxá framleiðir mikið fóður sem fer í fiskeldi. Með kaupunum komumst við inn í öflugan hluthafahóp á skráðu félagi í norsku kauphöllinni. Stærsti hluthafi Arctic Fish hefur mikla reynslu og þekkingu af laxeldi og því mikið tækifæri fyrir Síldarvinnsluna að fá að koma að uppbyggingu félagsins.

Eftir lok uppgjörstímabilsins var tilkynnt um kaup Síldarvinnslunnar á öllu hlutafé í sjávarútvegsfélaginu Vísi hf. Með kaupunum verður Síldarvinnslan meðal stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins mælt í þorskígildum. Kaupin eru háð samþykki hluthafafundar og Samkeppniseftirlitsins auk áreiðanleikakönnunar. Vísir hf. er rótgróið félag í bolfiski en félagið starfar bæði í útgerð og landvinnslu. Vísir er einnig með erlenda sölu- og framleiðslustarfsemi.

Það er ljóst að með þessum kaupum verður samstæða Síldarvinnslunnar í efri mörkum við núgildandi reglur um kvótaþak. Ef við lendum yfir munum við hafa tíma til að leiðrétta þá stöðu.

Efnahagur félagsins er sterkur. Sjávarútvegur er sveiflukenndur og því er mikilvægt að fyrirtækin séu fjárhagslega sterk til að geta brugðist við sveiflum með skynsamlegum hætti. Þrátt fyrir þau kaup sem ráðist hefur verið í á undanförnum misserum er fjárhagur félagsins sterkur og við teljum spennandi tíma framundan við að vinna úr þeim tækifærum sem við teljum okkur hafa í höndunum."