*

þriðjudagur, 15. júní 2021
Innlent 20. mars 2017 10:57

Tekjur Tempo jukust um 41%

Heildartekjur Tempo á árinu 2016 tæpum 1,5 milljörðum króna. Mercedes Benz, Starbucks og Porsche meðal nýrra viðskiptavina.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Hugbúnaðarfyrirtækið Tempo, dótturfélag Nýherja, hefur birt rekstrarniðurstöður fyrir árið 2016 og námu heildartekjurnar 13 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur 1.415 milljónum íslenskra króna.

Er um að ræða 41% tekjuaukningu frá árinu áður, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu. Sem fyrr kom meginhluti tekna Tempo erlendis frá en Bandaríkin eru stærsti markaður fyrirtækisins, auk Bretlands og Þýskalands.

Tæplega 3 þúsund nýjir viðskiptavinir

Ágúst Einarsson, framkvæmdastjóri Tempo, segir árið hafa verið viðburðarríkt hjá félaginu.

„Umsvifin jukust verulega og hið sama gerðu tekjurnar. Á þessu ári munum við svo kynna fjölmargar nýjungar sem munu auka virði lausna Tempo til muna fyrir viðskiptavini okkar,” er haft eftir Ágústi í tilkynningunni.

„Við höfum verið að þróa samþættingu kerfa og gera þau enn notendavænni. Þannig auðveldum við viðskiptavinum okkar enn frekar að safna gögnum, vinna úr þeim og taka mikilvægar ákvarðanir í rekstri.

Rekstur ársins 2017 fer vel af stað og ljóst að það stefnir í enn eitt frábært rekstrarár.”

Á árinu 2016 bættust ríflega 2.800 viðskiptavinir við hjá Tempo og starfsfólki fyrirtækisins í Norður Ameríku heldur áfram að fjölga jafnt og þétt í takt við aukin umsvif.

Meðal nýrra viðskiptavina Tempo á árinu má nefna fyrirtæki á borð við Mercedes Benz, Starbucks, Porsche og Estee Lauder.

Um Tempo

Tempo þróar hugbúnaðarlausnir sem er ætlað að hjálpa fyrirtækjum af öllum stærðum og gerðum að vinna á auðveldari og skilvirkari hátt.

Viðskiptavinir Tempo eru fyrirtæki um allan heim, allt frá sprotafyrirtækjum í Fortune 500 fyrirtæki, eins og Amazon, BMW, Pfizer, HomeAway, PayPal, Hulu, Dell, Mercedes Benz, Starbucks, Porsche og Disney.

Tempo er dótturfélag Nýherja og var formlega stofnað 1. febrúar 2015. Hjá Tempo vinna um 90 starfsmenn, bæði á Íslandi og í Norður Ameríku.

Stikkorð: BMW Mercedes Benz Nýherji Amazon PayPal Ágúst Einarsson Porsche Starbucks Tempo