Hækkun ráðstöfunartekna á árunum 1990 til 2014 er langminnst hjá yngstu hópum þjóðarinnar. Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans sem birt var í dag . Hagsjáin gerir lífskjör ungs fólks að umfjöllunarefni sínu og vísar til þess að umræðan undanfarið hafi beinst að fólki sem fætt er á tímabilinu 1980 til 1994 og erfiðleikum þeirra á húsnæðis- og vinnumarkaði.

Í úttektinni segir að breytingar á ráðstöfunartekjum frá 1990 til 2014 séu mjög mismunandi eftir aldurshópum. Meðalbreyting allra er 40% en mestu frávikin frá meðaltalinu voru 18% lækkun og 60% hækkun. Hækkun ráðstöfunartekna er langminnst hjá yngstu hópunum. Þannig hafa þeir sem eru undir 40 ára aldri fengið minni hækkanir en allir aðrir aldurshópar. Hækkun aldurshópsins undir þrítugu er mun minni en hjá öðrum hópum.

Samantektin byggir á tölum Hagstofunnar um ráðstöfunartekjur og í henni segir að niðurstaðan líti úr fyrir að vera skýr, þ.e. að tekjur yngstu aldurshópanna hafi dregist aftur úr tekjum annarra hópa.

Engar augljósar skýringar eru gefnar í úttektinni en þar segir þó: „Líklegt er að lengri skólaganga hafi áhrif. Þá er kannski minna um uppgrip og góða tekjumöguleika ungs fólks en áður var, t.d. vertíðir. Vinnumarkaður er orðinn tæknivæddari og sérhæfðari og mögulega er borgað hlutfallslega betur en áður fyrir þekkingu og reynslu. Allt eru þetta tilgátur sem þarf að skoða mun betur.”