Könnun á MasterCard, eins af stuðningsaðilum EM 2008 í knattspyrnu, á efnahagslegum áhrifum keppninnar leiðir í ljós að úrslitaleikurinn einn og sér á milli Spánar og Þýskalands hafi skapað tekjur upp á 300 milljónir evra, rúma 38 milljarða króna.

Í skýrslu MasterCard eru skammtíma- og langtímaáhrif Vínarborgar, þar sem úrslitaleikurinn fór fram, talin nema um 100 milljónum evra en önnur efnahagsleg áhrif nái jafnt til gestgjafaþjóðanna tveggja, Austurríkis og Sviss, og annarra nærliggjandi landa.

Sigurvegararnir, Spánverjar, bera meira úr býtum en aðrar þjóðir þegar til lengri tíma er litið, samkvæmt skýrslu MasterCard sem unnin var af Háskólanum í Coventry. Í þeirra hlut koma yfir 90 milljónir evra sem skapast með auglýsingasamningum, sjónvarpsréttarsamningum, aukinni miðasölu og sölu á varningi, auknum tekjum af ferðamennsku og „umtalsverðri uppsveiflu á neytendamarkaði“.

Höfundar skýrslunnar segja að þjóðin sem laut í lægra haldi, Þýskaland, megi búast við 40 milljóna evra innspýtingu í efnahagslífið við það eitt að hafa leikið til úrslita. Spænska knattspyrnusambandið fær 23 milljónir evra, tæpa 3 milljarða króna, í verðlaunafé fyrir að leggja Þjóðverja að velli í Vínarborg.