Fjarskipti hf. birti afkomu ársins 2015 í dag. Í ársreikningi félagsins kemur fram að hagnaður fyrirtækisins á árinu hafi verið 1,2 milljarður króna. Hagnaðurinn jókst því um 18% milli ára. Hagnaður á hlut nam þá 3,86 krónum. Tekjur Vodafone jukust um 4% á árinu í heild. EBITDA félagsins nam þá 3,2 milljörðum króna, en aukning milli ára var um 5%.

Eignir félagsins námu 15,4 milljörðum króna. Þar af voru 9 milljarðar eigið fé og 6,3 milljarðar skuldir. Það gefur eiginfjárhlutfall upp á 58%. Af eigin fé fyrirtækisins nam hlutafé einhverjum 3,2 milljörðum króna.

Skuldir félagsins drógust saman milli ára um heilar 700 eða svo milljónir króna. Eigið fé fyrirtækisins jókst sama sinnis, eða um rétt undir 500 milljónir króna. Handbært fé frá rekstri var þá 15% hærra en á árinu 2014, um tæpar 400 milljónir króna.

Haft er eftir Stefáni Sigurðssyni, forstjóra Vodafone, að sterkt ár sé að baki í rekstri Vodafone. Ágætur vöxtur hafi verið í fjarskiptageiranum, hvort sem er í sjónvarpi, interneti og vörusölu.

Þá var endurkaupaáætlun félagsins einnig samþykkt í dag, en samkvæmt henni er félaginu nú heimilt að kaupa eigin hlutabréf fyrir allt að 100 milljónir króna frá og með 18. febrúar til 17. mars.