Grillframleiðandinn Weber áætlar að sölutekjur félagsins dragist saman á árinu vegna truflana í framboðskeðjunni. Þetta kemur fram í grein hjá Wall Street Journal.

Tekjurnar minnkuðu einnig í byrjun árs og segir í tilkynningu frá félaginu að mögulegir viðskiptavinir hafi kosið að ferðast meira og því keypt færri grill. Þannig hafi vont veður einnig haft neikvæð áhrif á söluna.

Félagið tapaði 54,5 milljónum dala á fyrsta ársfjórðungi, eða sem nemur rúmum sjö milljörðum króna. Til samanburðar hagnaðist félagið um 69 milljónir dala á sama tíma í fyrra, eða sem nemur 9 milljörðum króna.

Kostnaðarverð seldra vara jókst um 8,1% á milli ára og sölutekjur minnkuðu um 7%. Félagið tapaði einnig 20 milljónum dala vegna veikingar evrunnar.

Weber áætlar að tekjur félagsins verði á bilinu 1,65 til 1,8 milljarða dala á þessu ári, en fyrri spár gerðu ráð fyrir tekjum upp á 2,14 milljarða dala. Tekjur félagsins námu tveim milljörðum dala á síðasta ári og eru því að lækka nokkuð á milli ára.

Gengi bréfa félagsins lækkaði um 5,5% eftir opnun markaða í gær en félagið var skráð í Kauphöllina í New York í ágúst 2021.