Heildartekjur spilavíta í kínversku spilaborginni Macau námu 3,5 milljörðum bandaríkjadollara í október og drógust þannig saman um 23,2 prósent frá sama tímabili á síðasta ári. BBC News greinir frá þessu.

Sjálfstjórnarhéraðið Macau er stærsta spilaborg heims og er þar ofar á lista en Las Vegas í Bandaríkjunum. Efnahagslíf borgarinnar reiðir sig að mjög stórum hluta á ferðamenn sem koma til borgarinnar í þeim tilgangi að stunda fjárhættuspil, en Macau er eina borgin í Kína sem leyfir spilavíti.

Aðgerðir kínversku kommúnistastjórnarinnar gegn spillingu að undanförnu hafa hins vegar haft þær afleiðingar að margir fjársterkir fjárhættuspilarar hafa haldið aftur af útgjöldum sínum. Einnig hafa mótmæli í Hong Kong að einhverju leyti hindrað ferðir til borgarinnar, en stysta leiðin til borgarinnar frá Hong Kong er með ferjusiglingu frá síðarnefndu borginni.