Bandaríska fyrirtækið Yahoo ætlar að bæta netleit sína til muna og saxa með því móti á hlutdeild Google í samkeppninni á netleitarmarkaðnum. Marissa Mayer, forstjóri Yahoo, sem tók við stýrinu í september í fyrra boðaði endurreisn Yahoo á uppgjörsfundi fyrirtækisins í gær. Yahoo var stofnað árið 1994 og blómstraði í kringum síðustu aldamót. Halla tók undan fæti hjá Yahoo eftir því sem sól Google tók að rísa.

Yahoo er í raun þrískipt fyrirtæki sem byggist m.a. á leitarvél, tölvupósti og forsíðunni Yahoo.com. Undir Yahoo eru svo ýmsir vefir, þ.á.m. fréttavefir eins og hjá Google.

Gott uppgjör

Síðasta ár var gott í langri sögu Yahoo. Tekjur fyrirtækisins námu rétt tæpum 5 milljörðum dala, jafnvirði rúmra 640 milljarða íslenskra króna, í fyrra. Þar af námu þær 1,346 milljónum dala, jafnvirði rúmra 170 milljarða króna, á fjórða ársfjórðungi. Þá nam rekstrarhagnaður (EBITDA) 1,7 milljörðum dala á öllu síðasta ári, þar af nam hagnaðurinn 509 milljónum dala á fjórða og síðasta fjórðungi ársins. Tekjurnar jukust um 2% á milli ára á milli fjórðunga en eru óbreyttar á árinu öllu. Rekstrarhagnaðurinn fyrir árið allt jókst um 8% á milli ára en 3% á fjórða fjórðungi miðað við sama tíma ári fyrra.

Erlendir fjölmiðlar sem fjallað hafa um afkomu Yahoo segja fyrirtækið geta þakkað Mayer árangurinn enda hafi tekjuvöxtur ekki sést í sögu Yahoo í heil fjögur ár.