Tekjur Snæland Grímsson ehf. námu 765 milljónum króna á síðasta ári og féllu um rétt tæplega tvo þriðju frá árinu á undan. Af koma félagsins fyrir skatta  var neikvæð um 66,7 milljónir en það hafði skilað 130,5 milljón króna hagnaði fyrir tekjuskatt árið 2019.

Þetta er meðal þess sem lesa má úr ársreikningi félagsins en rútufyrirtækið varð, eðli málsins samkvæmt, harkalega fyrir barðinu á brotthvarfi ferðamanna sökum faraldursins.

Eignir félagsins voru í ársbyrjun metnar á 577 milljónir sem skiptist nánast til helminga í fastafjármuni og veltufjármuni. Handbært fé var 157 milljónir og þá á félagið 109 milljón króna kröfu á tengdan aðila. Heildarskuldir námu 257 milljónum og var stærstur hluti þess skammtímaskuldir eða 181 milljón króna.

Í upphafi árs 2020 var meðalfjöldi starfsmanna 68 en þeim hafði fækkað um rúmlega helming á árinu. Á árinu naut félagið stuðnings úr ríkissjóði til að greiða laun á uppsagnarfresti en sá nam 75,3 milljónum króna. Laun og launatengd gjöld námu 219,5 milljónum króna, þá að frádreginni fyrrgreindri greiðslu auk breytingar á orlofsskuldbindingum, samanborið við tæpar 599 milljónir 2019.

Í athugasemdum við ársreikninginn kemur fram að félagið hafi gripið til ýmissa aðgerða til að verja lausafjárstöðu sína og komast í gegnum skaflinn. Félagið hafi að auki nýtt sér hlutabótaleið stjórnvalda, frestað gjalddögum á hluta staðgreiðslu og tryggingagjalds og þá hafa lánardrottnar veitt stuðning og greiðslufesti. Áætlanir stjórnenda gera ráð fyrir því að reksturinn sé tryggður.