*

fimmtudagur, 15. apríl 2021
Innlent 5. apríl 2021 14:01

Tekjurnar jukust um þriðjung

Þótt hart hafi verið í ári hjá listamönnum tókst viðburðafélagi Helga Björnssonar að auka tekjur sínar þrátt fyrir Covid.

Jóhann Óli Eiðsson
Helgi Björnsson.
Haraldur Guðjónsson

Natríum ehf., sem er að fullu í eigu Helga Björnssonar, hagnaðist um tæplega 2,8 milljónir króna á síðasta ári en það er talsvert betri afkoma en árið 2019 þegar hagnaðurinn var tæpar 26 þúsund krónur. Tekjur félagsins jukust um rúmlega þriðjung á milli rekstrarára.

Tilgangur félagsins er tónleikahald, útgáfa á efni því tengdu og skyldur rekstur. Samkvæmt ársreikningi félagsins námu tekjur rúmlega 41,3 milljónum króna en voru 28,8 milljónir árið áður. Rekstrargjöld námu 37,5 milljónum en höfðu verið 28,2 milljónir. Afkoma fyrir tekjuskatt var jákvæð um 3,3 milljónir króna.

Í árslok átti félagið tvær milljónir króna í handbært fé og auk tæplega þriggja milljón króna viðskiptakröfu. Óráðstafað eigið fé var 2,2 milljónir en hafði áður verið neikvætt um hálfa milljón. Skammtímaskuldir félagsins námu 2,1 milljón króna í árslok. Langtímaskuldir voru engar og hið sama má segja um fastafjármuni.

Síðasta ár var listamönnum erfitt enda illmögulegt að halda tónleika eða viðburði sökum samkomutakmarkana. Helgi bauð aftur á móti upp á streymi á Sjónvarpi Símans undir nafninu Heima með Helga. Síðasti þátturinn fór fram nú um páskahelgina. Þá fékk Helgi á síðasta ári riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til íslenskrar tónlistar og leiklistar.