*

þriðjudagur, 1. desember 2020
Innlent 7. september 2017 13:13

Tekjurnar námu 45 milljörðum

Tekjur hins opinbera af ferðamönnum árið 2015 námu 45 milljörðum en kostnaður ríkis og sveitarfélaga nam 6 milljörðum.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Beinar opinberar tekjur, bæði ríkis og sveitarfélaga, voru 45 milljarðar árið 2015. Beinar tekjur ríkissjóðs eingöngu vegna ferðamanna eru áætlaðir 32 milljarðar en kostnaður einungis 4 milljarðar segir í fréttatilkynningu frá Íslenska ferðaklasanum. 

Tekjur sveitarfélaga voru 13 milljarðar og kostnaður 2. Þessar upplýsingar verða meðal efnis sem kynnt verður á málþingi sem  Íslenski ferðaklasinn og Festa standa fyrir í Hofi á Akureyri, á morgun, föstudaginn 8. september næstkomandi. Á málþinginu mun skýrsla sem Deloitte gerði fyrir Stjórnstöð ferðamála í sumar verða ítarlega kynnt. Skýrslan er greining á beinum opinberum tekjum og gjöldum vegna ferðamanna árið 2015. 

Mikil umræða er á Íslandi um hvaða áhrif aukinn fjöldi ferðamanna hefur á efnahag, mannlíf og menningu í landinu segir í tilkynningunni. Ríki og sveitafélög fá auknar tekjur og íbúar í stórum og smáum byggðum njóta aukinnar ferðaþjónustu, en um leið finna þeir fyrir auknum ágangi og álagi sem ferðamannastraumurinn hefur á innviðina.

Ferðaþjónusta breytir mannlífi og samfélögum

Yfirskrift málþingsins er áhrif ferðaþjónustu á nærsamfélagið. Málþingið er ætlað þeim sem hafa með þróun og uppbyggingu ferðaþjónustu að gera, sem eru fyrirtæki, íbúar, menntastofnanir og opinberir aðilar.

Ljóst er að ferðamenn hafa víðtækari áhrif á hagkerfið, ýmis afleidd áhrif eru hagræn áhrif sem verða til vegna ferðamanna. Störf í ferðaþjónustu skapa aukin kaupmátt, sem aftur hvetur áfram neyslu og býr til launatekjur sem annars hefðu ekki verið til staðar. 

Ferðaþjónustan gerir einnig að verkum að lífsskilyrði íbúanna verða betri, þeir geta valið um frekari afþreyingu og veitinghúsaflóran blómstrar og skólar haldast opnir. Afleidd áhrif hafa þannig margföldunaráhrif á fjölgun starfa heima í héraði og þannig geta brottfluttir flutt aftur heim og skapað sér lífsskilyrði nærri fjölskyldunni. Þessi áhrif verða seint metin til fjár. 

Á málþinginu verða fróðleg erindi sem einmitt taka á þessum málum að því er tilkynningin segir:   

  • Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, hjá Rannsóknarmiðstöð ferðamála, mun fjalla um áhrif ferðamanna frá sjónarhóli íbúa
  • Róbert K. Guðfinnsson, athafnamaður, frumkvöðull og fjárfestir  mun fjalla um áhrif ferðaþjónustu í nærsamfélagi
  • Unnur Valborg Hilmarsdóttir, formaður Ferðamálaráðs Íslands og Markaðsstofu Norðurlands en hún er samstarfsaðili að málstofunni, flytur erindi.
  • Matthías Rögnvaldsson, forseti bæjarstjórnar Akureyrar flytur einnig erindi. 

Fundarstjóri verður Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands og stendur málþingið yfir frá kl. 14.00 - 16.00 í Hofi á Akureyri.