*

mánudagur, 8. mars 2021
Innlent 23. janúar 2021 15:15

Tekjurnar þrefölduðust í 3,4 milljarða

Tekjur Etix Everywhere Borealis fóru úr milljarði í 3,4 árið 2019 eftir miklar fjárfestingar í gagnaverum árið áður.

Júlíus Þór Halldórsson
Gagnaver Etix Everywhere Borealis á Blönduósi.
Aðsend mynd

Tekjur Etix Everywhere Borealis ehf., sem rekur gagnaver, námu 3,4 milljörðum króna árið 2019 og meira en þrefölduðust úr rétt um milljarði árið áður. Félagið fjárfesti fyrir milljarða í gagnaverum á Fitjum og Blönduósi í lok árs 2018. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins.

Hagnaðurinn dróst hins vegar saman úr 296 milljónum í 122 vegna stóraukins kostnaðar. Ber þar helst að nefna tæpa sexföldun kostnaðarverðs seldra vara í 1,7 milljarða, fimmföldun annars rekstrarkostnaðar í 240 milljónir, 14-földun afskrifta, og tæpa fjórföldun vaxtagjalda í 304 milljónir.

Heildareignir drógust lítillega saman og námu 6,9 milljörðum í árslok 2019, en eigið fé jókst um tvo þriðju hluta og nam tæpum 1,1 milljarði. Eiginfjárhlutfall fór því úr 9,3% í 15,8%. Greidd laun námu 149 milljónum og tvöfölduðust milli ára, en meðalfjöldi starfsmanna, 14, var óbreyttur. Meðallaun námu því 884 þúsund krónum á mánuði.

Stikkorð: Borealis Everywhere Etix