Mikil vöxtur var á síðasta ári í rafrænum samningalausnum Taktikal en áskriftartekjurnar tífölduðust og notendafjöldinn meira en hundraðfaldaðist á einu ári frá því að heimsfaraldurinn hófst, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Taktikal er íslenskt hugbúnaðarfyrirtæki sem var stofnað snemma árs 2017 af nokkrum sérfræðingum úr fjármála- og hugbúnaðargeiranum. Taktikal hefur þróað hugbúnað sem gerir fyrirtækjum kleift að loka samningum með rafrænum hætti.

„Fyrirtækið hefur sprungið út á síðastliðnu ári. Fyrir aðeins rúmlega ári síðan samanstóðu tekjur Taktikal fyrst og fremst af ráðgjafar- og innleiðingartekjum. Það hlutfall hefur nú alveg snúist við og eru áskriftartekjur nú um 80% af tekjum,“ er haft eftir Vali Þór Gunnarssyni, framkvæmdastjóra og meðstofnanda Taktikal.

„Viðsnúninginn má fyrst og fremst þakka að við vorum með rétta vöru á réttum tíma. Við lögðum gríðarlega vinnu í vöruþróun enda sáum við fram á að staðfesting samninga yrði stafrænt ferli. Covid hraðaði þessari þróun gríðarlega, en s.l. ár höfum við vart haft undan að svara fyrirspurnum frá fyrirtækjum og stofnunum. Rafræn staðfesting á skjölum hefur þannig sparað fyrirtækjum bæði tíma og vinnu við að hendast út og suður til þess að safna undirskriftum á pappíra. Það er enginn að fara til baka í gamla farið aftur. Framundan er enn meiri eftirspurn eftir tilbúnum lausnum sem innihalda sífellt meiri sjálfvirkni t.d. í móttöku nýrra viðskiptavina,“ segir Valur.

Algengur misskilningur sé að heimurinn sé kominn langt í stafrænni væðingu á sviði samninga, að því er segir í tilkynningunni. Í mesta lagi séu 10-15% af samningum í heiminum í einhverskonar stafrænu ferli.

Næsta skref að vaxa inn á erlendan markað

Á næstu misserum kemur út alþjóðlegt undirskriftarferli frá Taktikal sem gerir það að verkum að fyrirtæki geta undirritað skjöl óháð landamærum.

„Það getur verið gríðarlega flókið ferli að undirrita skjöl yfir landamæri vegna mismunandi reglna á milli landa. Við hjá Taktikal höfum þróað lausn fyrir alþjóðlegar undirritanir og er hún nú í úttekt. Næsta skref er að fara með hana á alþjóðamarkað. Markmið Taktikal er að sem flest skjöl verði staðfest með rafrænum hætti. Þannig má draga úr gríðarlegri sóun og standa fyrir hagræðingu í rekstri hjá fyrirtækjum og stofnunum," segir Valur.

„Við höfum undanfarið ár lagt mikla vinnu í að gera lausnir okkar tilbúnar fyrir alþjóðamarkað og setja þær upp þannig að hægt sé að selja þær nánast hvar sem er í heiminum. Að keppa á alþjóðamarkaði er gjörólíkt því að vinna á litlum heimamarkaði.  Vinnan felst ekki bara í aðlögun vörunnar þannig að hún virki í samspili við stærstu markaðssvæðin, heldur miklu fremur uppbyggingu á nýjum dreifileiðum og þekkingu í sölu- og markaðssetningu vörunnar,“ bætir Valur við.