*

föstudagur, 6. desember 2019
Innlent 27. júlí 2017 10:59

Tekjusamdráttur hjá Deutsche

Hagnaður Deutsche Bank jókst ríflega á öðrum ársfjórðungi, en tekjur lækkuðu um 10% milli ára. Tekjur bankans hafa ekki verið lægri í þrjú og hálft ár.

Ritstjórn
John Cryan, framkvæmdastjóri Deutsche Bank.
epa

Þýski bankarisinn Deutsche Bank hagnaðist um 466 milljónir evra, eða því sem nemur 53,6 milljörðum íslenskra króna, á öðrum ársfjórðungi 2017 borið saman við 20 milljónir evra á sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum í dag.

Afkoman var umfram væntingar, en hagnaður fyrir skatt nam 822 milljón evra borið saman við 717 milljóna evra væntan hagnað. Bætt afkoma milli ára skýrist einna helst af lægra væntu tapi vegna útlánaáhættu (e. provisions for credit losses) og umfangsmiklum niðurskurði á kostnaðarhlið. 

Þrátt fyrir bætta afkomu námu tekjur 6,6 milljörðum evra og drógust þær saman um 10% milli ára. Tekjur bankans hafa ekki verið lægri á einum ársfjórðungi í þrjú og hálft ár. Samdrátturinn skýrist aðallega af 16% samdrætti í tekjum af fjárfestingarbankastarfsemi. Tekjur af almennri bankaþjónustu rýrnuðu um 7% og tekjur af eignastýringu lækkuðu um 4%.

Starfsmannafjöldi fyrirtækisins lækkaði um 1.525 á ársfjórðungnum og 4.656 milli ára, en bankinn hefur verið að ganga í gegnum endurskipulagningu á efnahagsreikningi sínum og niðurskurð í kjölfar fjárhagsvandræða

Í tilkynningu frá bankanum segir John Cryan, framkvæmdastjóri Deutsche, að bankinn hafi náð góðum árangri í hagræðingu og sjóðstreymi á ársfjórðungnum. Þó hafi arðsemi bankans ekki verið í takt við langtímaáætlanir félagsins. Segir hann samdrátt í tekjum einkum hafa orsakast af lítilli virkni viðskiptavina á fjármagnsmörkuðum.

Við opnun markaða lækkaði gengi hlutabréfa í Deutsche Bank um 4,7% og höfðu bréf bankans ekki lækkað svo mikið síðan 6. mars síðastliðinn. Samkvæmt greiningu JP Morgan á uppgjörinu var afkoma Deutsche Bank „súrsæt“.