Tekjuskattur mun aukast um eitt prósentustig um áramótin samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar. Á sama tíma mun persónuafsláttur hækka vegna tengingar við verðbætur og ákvörðunar stjórnvalda frá því fyrr á árinu.

Forsendur fjárlagafrumvarpsins hafa breyst umtalsvert frá því frumvarpið var lagt fram í upphafi þings í haust. Samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar verður um 150 til 160 milljarða króna halli á ríkissjóði á næsta ári. Frumvarpið gerði ráð fyrir því að hallinn yrði um 60 milljarðar.

Hægt verður á ýmsum framkvæmdum

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er í áætlun ríkisstjórnarinnar gert ráð fyrir því að hægt verði mjög á ýmsum opinberum framkvæmdum svo sem vegna byggingar nýs háskólasjúkrahúss, lagningu Sundabrautar, fangelsisbyggingar við Litla-Hraun og sömuleiðis stendur til að hægja á öðrum minni vegaframkvæmdum.

Innan ríkisstjórnarinnar er á sama tíma, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, lögð áhersla á að skerða sem minnst framlög til velferðarmála og menntamála.

Önnur umræða um fjárlagafrumvarpið fer fram á  Alþingi eftir helgi.