Nú í vikunni var birt álagning skattstjóra á lögaðila en hún byggir á upplýsingum um reksturinn eins og hann var árið 2004 og efnahag í lok þess árs. Álagning ríkisins á lögaðila nam alls 53,6 milljörðum króna og hefur hækkað um réttan fjórðung milli ára. Mestu munar um verulega hækkun tekjuskatts lögaðila sem nemur 23,8 milljörðum króna og hefur vaxið um 75% frá fyrra ári, eða um rétta 10 milljarða króna. Hann greiða 13.200 gjaldendur og fjölgaði þeim um 16% frá fyrra ári.

Áætlanir skattstjóra vegna slakra framtalsskila eru hins vegar mjög miklar eins og undanfarin ár - ívíð betri þó en í fyrra- eða um og yfir fjórðungur lögaðila á skrá. Um það bil 6 milljarðar af heildarálagningu tekjuskatts nú eru áætlanir samanborið við 4 milljarða á síðasta ári, eða um helmingshækkun. Þrátt fyrir það er hlutfall þeirra af heildarálagningu tekjuskatts heldur lægra í ár en undanfarin fjögur ár. Skýringin er sú að álagning tekjuskatts án áætlana nær tvöfaldast milli ára, eða úr 9,5 milljörðum í um 18 milljarða króna.

Þessi mikla aukning endurspeglar fyrst og fremst það efnahagsástand sem ríkti á árinu 2004 með hagvexti yfir 6%, en tekjuskattur lögaðila er mjög næmur fyrir stöðu efnahagslífsins á hverju tíma; rís hátt þegar vel árar en fellur á hinn bóginn hratt í niðursveiflunni. Af því leiðir að mjög erfitt er að spá fyrir um tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti lögaðila, auk þess sem hann er lagður á fyrirtæki með árstöf segir í vefriti fjármálaráðuneytisins.

Ljóst er af ofangreindum tölum að tekjuskattur lögaðila mun skila ríkissjóði umtalsvert meiri tekjum í ár en gert hafði verið ráð fyrir í fjárlögum.
Af álagningu annarra skatta má nefna tryggingagjaldið sem skilar ríkissjóði jafnvel meiri tekjum en tekjuskatturinn, eða 27,6 milljörðum króna af launagreiðslum ársins 2004. Stærstur hluti þess er hins vegar innheimtur í staðgreiðslu og þá á árinu 2004. Þá nemur álagning eignarskatts 1,5 milljarði króna og hækkaði hann um tæp 13% frá fyrra ári og er nú lagður á í síðasta sinn.