Aðeins tæpri viku eftir útgáfu spurningaleiksins QuizUphafa um 600.000 manns náð í leikinn í iTunes verslun Apple, en leikurinn er búinn til af íslenska fyrirtækinu Plain Vanilla. Nýlega keypti hópur erlendra fjárfesta hlut í félaginu og var félagið talið um 2,1 milljarðs króna virði í þeim viðskiptum. Kaupin fóru hins vegar fram áður en leikurinn kom út og miðað við velgengni hans má gera ráð fyrir að virði félagsins hafi aukist til mikillamuna á síðustu dögum.

Leikurinn er ókeypis fyrir notendur og því er eðlilegt að velta því fyrir sér hvernig Plain Vanilla sér fyrir sér að afla tekna af honum. „Við erum hreinlega ekki komin á þann stað ennþá að við getum ákveðið hvernig við ætlum að búa til pening út úr þessu, því það eru margar leiðir færar og það er mikilvægt að stíga þessi skref í sátt við notendur,“ segir Þorsteinn Baldur Friðriksson, framkvæmdastjóri Plain Vanilla. Nú þegar geta notendur keypt tímabundin „boost“ sem gera þeim kleift að safna reynslustigum hraðar en ella. Þorsteinn segir einnig möguleika að semja við fyrirtæki um að búa til spurningar um ákveðnar vörur eða þjónustu og að fyrirtækin myndu greiða fyrir það.

Ekki hrifinn af auglýsingum
„Okkar fyrsti spurningaleikur var gerður í samstarfi við framleiðendur Twilight-myndanna og svona samstarf gæti orðið svipað þeim leik,“ segir Þorsteinn. Keyptir leikir gætu að sögn Þorsteins annað hvort birst öllum notendum QuizUp eða þeim sem líklegir eru til að hafa áhuga á þeim miðað við hvaða spurningaleiki þeir hafa spilað í QuizUp.

Annar möguleiki er að fara leið, sem vinsæl er hjá asískum leikjaframleiðendum, en það er að selja fólki viðbætur við leikinn sem ekki hafa áhrif á framgang þess í leiknum en eru þess í stað „upp á punt“. Það gætu t.d. verið bakgrunnar eða titlar sem fólk gæti keypt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .