Tekist hefur að loka fyrir gat í rekstri Reykjavíkurborgar og sex mánaða uppgjör og tekjuþróun borgarinnar sýni fram á bjartari tíð, að sögn Dags B. Eggertssonar, formanns borgarráðs og varaformanns Samfylkingarinnar. Dagur var endurkjörinn varaformaður flokksins á Landsfundi Samfylkingarinnar í gær.

Í ítarlegu viðtali við Viðskiptablaðið segir hann að þegar sitjandi meirihluti tók við völdum hafi verið búið að ná ákveðnum árangri, en það hafi þýtt að verkefni nýja meirihlutans hafi verið sérstaklega vandasamt. „Það var búið að skera niður allt sem blasti við og núna þurfti að ganga lengra og fara í skipulagsbreytingar til að ná þessum árangri. Það er alltaf viðkvæmt, t.d. í skólamálum þar sem hvessti mjög mikið um tíma. Mér fannst ganga illa að koma því til skila hvað við vorum að reyna að gera þar. Við vildum spara í yfirstjórninni til þess að niðurskurðurinn myndi ekki bitna á kennslunni og þjónustu við börnin. Engin stóryrðanna um upplausn í skólamálum hafa staðist og við útveguðum með þessu leikskólapláss fyrir yfir 200 ný leikskólabörn.“

Hvað varðar tekjuspár hafi meirihlutinn viljað vera íhaldssamur. „Útsvarstekjurnar eru nú yfir 1.600 milljónum króna hærri en við bjuggumst við,“ segir Dagur. „Það þýðir að við þurfum ekki að grípa til einhverra viðbótaraðgerða vegna kjarasamninganna sem gerðir voru í sumar og eru nokkuð dýrir. Útlitið er ágætt fyrir næsta ár og næstu fjárhagsáætlun. Það verður aðhaldsáætlun en ekki niðurskurðaráætlun. Við teljum okkur sjá fram á fimm ár af hægum en stöðugum vexti, það tekur okkur fimm ár að komast í sambærilegar tekjur og voru hér árið 2008. Vegna aðgerða okkar og ákvarðana stöndum við hins vegar á mun traustari grunni, við erum með fimm ára áætlun fyrir Orkuveituna, við erum með þriggja ára kjarasamninga við alla okkar hópa þannig að við getum séð betur hvaða svigrúm við höfum og hvar þarf að taka á.“

Svigrúm til sóknar

Dagur segir að nú gefist meira svigrúm til þess að hyggja að nauðsynlegum sóknarfærum. „Það er efst á dagskrá að auka atvinnu og fjárfestingu og byggja upp fjölbreyttari húsnæðismarkað. Eitt af stóru viðfangsefnunum eftir hrun er að nýjar kynslóðir ungs fólk, sem eru sannarlega ekki að fara að taka 90% lán til þess að kaupa sér húsnæði og stendur það í raun ekki til boða, hafa heldur ekki þann valkost að fara út á þroskaðan og heilbrigðan leigumarkað,“ segir Dagur. „Þetta er eitt stærsta verkefnið núna. Við þurfum því að skipuleggja og byggja litlar og meðalstórar íbúðir sem ungt fólk getur hugsað sér að kaupa eða leigja. Þetta þarf að gera í nánu samstarfi við húsnæðisfélög og fjármögnunaraðila til að þessi uppbygging geti orðið hröð.“