Heildarhagnaður Origo nam 145 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi. Hagnaðurinn er á svipuðum slóðum og á sama tíma í fyrra þegar félagið hagnaðist um 163 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningu Origo um árshlutauppgjör hlutafélagsins.

Origo seldu vöru og þjónustu fyrir rúma 4,7 milljarða króna á ársfjórðungnum. Um er að ræða 13,7% tekjuvöxt á milli ára. Framlegð nam tæplega 1,3 milljörðum króna og jókst um 27% á milli ára.

Tekjur félagsins á notendabúnaði og tengdri þjónustu voru rúmlega 2 milljarðar króna á tímabilinu, sem er 17,7% tekjuvöxtur á milli ára. Tekjur Origo á hugbúnaði og tengdri þjónustu voru um 1,5 milljarðar, sem er 9,4% tekjuvöxtur á milli ára. Tekjur Origo á rekstrarþjónustu og innviðum jukust um 12,5% á milli ára.

Á sama tíma jókst rekstrarkostnaður félagsins um 20% á milli ára, en í tilkynningunni segir að það megi helst skýra vegna fjölgunar stöðugilda hjá samstæðunni.

Eiginfjárhlutfall félagsins var 57,3% á fyrsta ársfjórðungi. Eignir félagsins námu 14,8 milljörðum króna í lok mars. Markaðsvirði Origo í lok fyrsta ársfjórðungs var tæplega 32 milljarðar króna, miðað við að lokaverð hlutabréfa í ársfjórðungnum var 73,5 krónur á hlut.

Jón Björnsson, forstjóri Origo:

„Horfur í rekstri Origo eru áfram ágætar. Framundan er töluvert af stórum og spennandi umbreytingarverkefnum á íslenskum markaði, ásamt því að við erum vongóð um að verkefni tengd ferðaiðnaðinum fari í gang á næstu mánuðum. Samhliða þessu erum við mjög spennt fyrir verkefnum í upplýsingaöryggi. Við teljum það vera lykilatriði að hjálpa fyrirtækjum og stofnunum að auka öryggisvitund sína og hlúa að stafrænum öryggismálum, ekki síður en þau huga að öðrum öryggismálum sínum.“