Tékknesk stjórnvöld og seðlabanki landsins hafa tilkynnt um áætlun til þess að koma í veg fyrir skarpa styrkingu tékknesku krónunnar. Styrkingarinnar hefur verið vænst vegna erlendrar fjárfestingar og fjárstreymis til landsins úr sjóðum Evrópusambandsins.

Stjórnvöld hyggjast leggja söluhagnað af einkavæðingu inn á gjaldeyrisreikning í seðlabanka landsins og verður hagnaðinum ekki umbreytt í tékkneskar krónur. Á næsta ári verður tékkneska ríkisflugfélagið einkavætt auk þess sem rekstrarfélag alþjóðaflugvallarins í Prag verður selt.