Undirritaður hefur verið samningur milli Lífeyrissjóðs Akraneskaupstaðar, LsA, og Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga, LSS, um að LSS annist allan daglegan rekstur LsA frá 1. janúar 2007 að telja.

Í því felst að LSS annast allt réttindabókhald, annast útreikning og útborgun lífeyris, annast allt reikningshald fyrir sjóðinn og móttöku, vörslu og ávöxtun iðgjalda. Rekstur LsA verður þó áfram á kennitölu og undir nafni LsA að því er kemur fram í frétt á heimasíðu Landssamtaka lífeyrissjóða.

Sérstök áhersla er lögð á að LSS veiti sjóðfélögum í LsA góða þjónustu með áherslu á öruggar upplýsingar og traustar ráðleggingar. Útbúið verður sérstakt vefsvæði fyrir LsA á heimasíðu LSS.

Samningur þessi er sambærilegur samningum sem LSS hefur gert áður um rekstur Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar, Lífeyrissjóðs starfsmanna Húsavíkur­kaupstaðar og Lífeyrissjóðs Neskaupstaðar en allir þessir lífeyrissjóðir eru svokallaðir eftirmannsreglusjóðir og hefur þeim verið lokað fyrir nýjum sjóðfélögum.