*

sunnudagur, 16. maí 2021
Innlent 26. maí 2016 15:56

Tekur allt að 17 daga að skrá bíl

Bílainnflutningur tefst vegna hægagangs við skráningar notaðra bíla hjá Samgöngustofu.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Afgreiðsla skráninga á notuðum bílum tekur allt að 17 dögum hjá samgöngustofu segir Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, en félagið sendi samgöngustofu erindi vegna tafa á bílainnflutningi. Löng bið á forskráningu bíla valda fyrirtækjum sem flytja bílana inn verulegu tjóni og má þar nefna séstaklega bílaleigur.

Samgöngustofa lofar bót og betrun

Samgöngustofa svaraði erindinu í dag en þar er vísað til stóraukins innflutnings bíla undanfarið ár. Jafnframt segjast þeir hafa lagað afgreiðslutímann vegna nýrra bíla þannig að hann er á ný 2 til 3 dagar. Það hafi þeir gert með hagræðingu, breyttu verklagi og aðstoð starfsfólks úr öðrum deildum sem hafi skilað stórauknum afköstum við forskráningar.

En í svari samgöngustofu komi jafnframt fram að vegna aukins innflutnings sé forskráning notaðra bíla lengri en áður þar sem hún er töluvert sérhæfðari.

Hjálpar ekki bílaleigum neitt

„Það hjálpar innflytjendum notaðra bíla, sem eru til dæmis bílaleigur, hins vegar ekki neitt. Notaðir bílar eru líklega um 10% af bílainnflutningnum. Við höfum glæný, staðfest dæmi um að afgreiðslutími vegna notaðra bíla hefur verið allt upp í sautján daga, sem er þremur dögum meira en sá tími sem Samgöngustofa áskilur sér lengstan til að afgreiða umsóknir. Fyrir nokkrum misserum tók þetta ferli 1-2 daga, líka fyrir notuðu bílana,“ segir Ólafur.