Ég sé um öll ytri og innri samskipti fyrir Íslandsbanka. Að auki held ég utan um samfélagsmál bankans og vinn nú að því að móta nýja stefnu fyrir bankann. Fjölbreytnin við starfið höfðar mest til mín. Verkefnin eru jafn fjölbreytt og þau eru mörg og það hentar mér vel að vinna að mörgum ólíkum hlutum á sama tíma. Ég vinn einnig þvert á bankann og næ með þeim hætti að kynnast starfi ólíkra deilda og starfsfólki. Svo skemmir nú ekki fyrir hvað það er skemmtilegt fólk sem vinnur hjá bankanum,“ segir Guðný Helga Herbertsdóttir, upplýsingafulltrúi Íslandsbanka.

Hún er með meistaragráðu í lögum og viðskiptum ESB frá Viðskiptaháskólanum í Árósum og viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands. Áður starfaði hún sem fréttamaður hjá 365 miðlum og forverum þess fyrirtækis. Hún segir fyrri menntun og reynslu tvímælalaust nýtast í starfi. „Ég er í samskiptum við fjölmiðla nær alla daga og það er kostur að hafa setið hinu megin borðs líka,“ útskýrir hún

Aðspurð segir Guðný lykilinn að farsæld í starfi vera aðlögunarhæfni. „Umhverfið er sífellt að breytast og við þurfum að breytast með. Vinnustaðir breytast í takt við nýjar áskoranir. Mitt ráð er að taka breytingunum fagnandi í stað þess að óttast þær. Það felast nefnilega yfirleitt tækifæri í þeim,“ segir hún.

Nánar er spjallað við Guðnýju Helgu í Áhrifakonum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .