Eins og kunnugt er kusu Bretar með því að þjóðin segði sig úr Evrópusambandinu fyrir helgi. Niðurstaðan hefur haft talsverð áhrif á verðbréfa- og gjaldeyrismarkaði þrátt fyrir að úrsögnin sé ekki orðin formleg enn sem komið er.

Til þess að gangsetja hið formlega úrsagnarferli þurfa bresk stjórnvöld að virkja fimmtugasta lið aðildarsamnings síns við Evrópusambandið sem kemur ferlinu á skrið. Talsmenn útgöngusinna hafa þó sagt að ekkert liggi á því að virkja fimmtugustu greinina.

Nú hefur þó Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagt að engar óformlegar viðræður verði milli Breta og ESB. Það sé ekki tími, ástands hagkerfanna vegna, til þess að bíða lengi með það að hefja hið formlega úrsagnarferli. Þolinmæði ESB gagnvart Bretum sé ekki endalaus.

„Við höfum ekki efni á því að bíða með þetta mikið lengur, því það myndi þýða að hagkerfin beggja megin myndu finna fyrir neikvæðum áhrifum af óvissunni sem stafar af þessu millistigsástandi,” sagði Merkel. „Ég hef þó skilning gagnvart því að Bretar vilji greina ástandið nú áður en ferlið hefst.”