Finnur Þór Erlingsson hefur starfað á sviði upplýsingatækni og hugbúnaðargerðar frá árinu 2004. Hann hefur á þeim tíma starfað við hugbúnaðar­þróun hjá Straumi fjárfestingabanka, Libra fjármálalausnum og Nordic Visitor. Nú síðast starfaði hann sem forstöðumaður upplýsingatæknisviðs Kviku banka og áður Straumi fjárfestingabanka frá árinu 2010. Hann hefur nú gengið til liðs við hugbúnaðarfyrirtækið Corivo þar sem hann mun stýra þróun bakenda- og sérlausna á Corivo Travel Platform hugbúnaðinum.

„Fyrst og fremst snýr starfið hönnun og þróun á Corivo Travel Platform hugbúnaðinum sem Corivo hefur verið með í rekstri töluvert lengi. Margir af okkar viðskiptavinum eru ferðaskrifstofur sem selja utanlandsferðir til innlendra viðskiptavina.

Corivo býður ferðaskrifstofum með breitt þjónustuframboð upp á heildarlausn í upplýsingatækni. Kjarnahugbúnaðurinn nær yfir allt bókunarferlið og tekur á öllum þáttum í þjónustu við viðskiptavini, frá fyrstu leit að valkostum til samskipta eftir heimkomu. Kerfið og tengdar sérlausnir styrkja innviði og bæta rekstur fyrirtækja í ferðaþjónustu með aukinni sjálfvirkni í bakvinnslu og öflugri tengigetu við ytri kerfi og lausnir, svo sem erlendar veitur og fjármálakerfi. Sem dæmi má nefna að ferðin sem ég var að koma úr er bókuð í gegnum þetta kerfi,“ segir Finnur sem var á heimleið frá Tenerife þegar blaðamaður heyrði í honum.

Finnur er í sambúð með Önnu Berglindi Jónsdóttur og eru þau búsett í Laugardalnum. Þau eiga saman tvo drengi, tvíbura sem eru 5 ára gamlir. Fyrir utan vinnu segir Finnur að mestur tími fyrir fari í það að vera með fjölskyldunni. „Við erum öll mjög virk. Reiðhjól, hreyfing og íþróttir er það sem mikið af tímanum fer í.“ Sjálfur segist Finnur vera mikill hjólreiðamaður. „Ég hjóla ansi mikið og á bæði racer og fjallahjól. Við fjölskyldan erum búin að vera í fríi á Tenerife en ég tók hjólið með og hef verið að hjóla um eyjuna. Þá hef ég einnig verið að keppa í hjólreiðum og hef tekið þrisvar þátt í WOW Cyclothon.“

Nánar er rætt við Finn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .