Í fyrsta sinn á íslenskum hlutabréfamarkaði mun svokölluð tilnefningarnefnd vera að störfum fyrir aðalfund Fjarskipta hf. (Vodafone). Hlutverk nefndarinnar er að tilnefna frambjóðendur til stjórnarsetu í félaginu en við vinnu sína skal nefndin taka mið af heildarhagsmunum hluthafa. Einnig er kosið í nefndina sjálfa á aðalfundi.

Hlutverk nefndarinnar er að tilnefna frambjóðendur til stjórnarsetu í félaginu fyrir aðalfund þess sem fer fram þann 19. mars næstkomandi. Við vinnu sína skal nefndin taka mið af heildarhagsmunum hluthafa.

Á meðal verkefna nefndarmanna er að meta hæfni, reynslu og þekkingu tilvonandi kandídata til stjórnarsetu, einnig að meta óhæði þeirra, gæta að kynjahlutföllum í stjórn, upplýsa nýja stjórnarmenn um ábyrgð fylgjandi stjórnarsetu í félaginu og sjá til þess að hluthöfum berist upplýsingar um stjórnarmenn.

„Það er ánægjulegt að tilnefningarnefnd Fjarskipta komi nú í fyrsta sinn að aðalfundi félagsins. Hlutverk nefndarinnar er að stuðla að fagmennsku og gagnsæi við mat á frambjóðendum til stjórnar félagsins, hluthöfum jafnt sem öðrum hagsmunaaðilum til heilla. Starf nefndarinnar er hluti af áherslu félagsins á ástundun ábyrgra stjórnarhátta , að fyrirmynd sem gefist hefur vel á alþjóðavettvangi, og er vonandi það sem koma skal hjá fleirum hér á landi,“ segir Ragnheiður Dagsdóttir, formaður tilnefningarnefndar Fjarskipta hf.

Núverandi tilnefningarnefnd skipa Ragnheiður Dagsdóttir, meðeigandi og sérfræðingur í ráðningum hjá Capacent sem jafnframt er formaður nefndarinnar, Ásdís Jónsdóttir, sérfræðingur á skrifstofu háskóla og vísinda í Menntamálaráðneytinu og Heiðar Guðjónsson, stjórnarformaður Fjarskipta.