Þórarinn G. Pétursson og Már Guðmundsson
Þórarinn G. Pétursson og Már Guðmundsson
© BIG (VB MYND/BIG)
Trúverðugleiki peningastefnunnar þýðir bara eitt. Það er hvort aðilar á markaði trúi því að Seðlabankinn geti, vilji og reyni að ná markmiðum sínum. Sá trúverðugleiki virðist ekki vera fyrir hendi, sé litið til þess að verðbólguvæntingar eru hærri en verðbólgumarkmið bankans. Þetta sagði Már á kynningarfundi vaxtaákvörðunar sl. miðvikudag. Peningastefnunefnd ákvað að hækka stýrivexti um 0,25 prósentur. Hann var spurður um hversu þungt trúverðugleiki bankans vegi í ákvörðun peningastefnunefndar, það er að nefndin sé samkvæm sjálfri sér og haldi áfram á þeirri vegferð hækkana sem hún hefur boðað.

Már sagði einungis hægt að vinna trúverðugleika með að ná markmiðum og halda þeim yfir lengri tíma. Eins og hann gerði í viðtali við Viðskiptablaðið, sem birtist um miðjan október, sagði Már að sagan muni skera úr um þetta.

Þórarinn bætti því við að hér hafi ekki náðst sami árangurinn við að halda niðri verðbólgu og í öðrum löndum. Trúverðugleikinn hafi áhrif á svigrúm peningastefnunnar til að styðja við efnahagslífið. Því meiri trúverðugleiki, þeim mun meira geti bankinn gert. Hann nefndi bandaríska seðlabankann sem dæmi um banka sem sé burðugur til þess að styðja við efnahagslífið með kröftugum hætti. Því miður hafi svigrúm hér ekki verið jafn mikið, og það taki tíma að laga.

Nánar er fjallað um vaxtaákvörðun peningastefnunefndar í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.