Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, kveðst ánægður með samstarfið við Framsóknarflokkinn í ríkisstjórn. „Við höfum verið að slípa samstarfið til þetta fyrsta ár. Enginn ráðherranna hefur áður setið í ríkisstjórn. Það er eðlilegt að menn séu í einhvern tíma að læra hver á annan og að það taki tíma að stíga taktinn saman en mér finnst það hafa gengið ágætlega heilt yfir. Það á bæði við um samstarfið í þingflokki Sjálfstæðisflokksins og á milli flokkanna,“ segir Bjarni.

Hann segir að það ríki traust milli sín og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. „Án trausts er það varla vinnandi vegur að koma málum áfram. Það þurfti traust til að klára þessi stóru mál. Það þarf málamiðlanir og gagnkvæman skilning. Því er ekki að leyna að við erum í raun bara að hefja samstarfið, en þetta fyrsta ár lofar nokkuð góðu,“ segir Bjarni.