Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, segir það taka tvö ár til að snúa við rekstri House of Fraser-stórverslunarkeðjunnar í samtali við The Times í dag.

Fjárfestahópur, sem leiddur er af Baugi, tók formlega við rekstri House of Fraser í gær.

Jón Ásgeir segir að áætlað sé að hætta með meirihlutann af 14 vörumerkjum stórverslunarinnar, svo sem Rackhams, Binns og Army & Navy.

"Það sem er leiðinlegt við verslun í Bretlandi er endurtekning," segir Jón Ásgeir. "Verslanirnar eru svipaðar og selja sömu vörumerkin. Við höfum möguleika á því að koma inn með ný vörumerki."

Fjárfestahópurinn greiddi 351 milljón punda fyrir hlutafé House of Fraser, eða 148 pens á hlut. Auk Baugs, tóku FL Group og stofnandi Rubicon-tískuvörufyrirtækisins, Don McCarthy, þátt í yfirtökunni.

Yfirtakan er fjármögnuð með lánsfé frá Glitni og Bank of Scotland.