Með breytingu á lögum um LSR verða lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna færð smátt og smátt í takt við það sem gerist á almenna markaðnum. Alþingi hefur samþykkt frumvarpið nánast óbreytt, það er fyrir utan viðbótarákvæði um lífeyrissjóðinn Brú.

Nýsamþykkt frumvarp um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins felur í sér að sérstakt lagaákvæði um föst réttindi sjóðfélaga í A-deild sjóðsins á grundvelli breytilegs iðgjalds falli burt.

Höfðu um 20 prósentustiga hærri lífeyri

Er gert ráð fyrir að þess í stað verði nýtt réttindakerfi verði sett upp sem miðist við fast iðgjald í samræmi við það sem gengur og gerist hjá lífeyrisrétthöfum á almennum vinnumarkaði.

Starfsmenn hins opinbera hafa haft töluvert ríkari réttindi í lífeyrissjóðum sínum en þeirra á almennum markaði. Nema greiðslurnar að jafnaði 76% af ævitekjum þeirra meðan á almenna markaðnum nema þær um 56% af tekjunum.

Bakábyrgð af hinu opinbera

Að auki eru lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna með bakábyrgð frá hinu opinbera og ekki má skerða réttindi þeirra eins og staðan er núna.

Tilurð þeirra breytinga sem nú hafa verið samþykkt er samkomulag aðila vinnumarkaðarins um nauðsyn þess að koma á samræmdu lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn, þar sem lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna verði komið í svipað horf og nú gildir á hinum almenna markaði.

Ríkissjóður greiðir mismuninn

Mun ríkissjóður greiða sérstakt framlag, lífeyrisauka, sem er sá mismunur sem er annars vegar á réttindum sjóðfélaga samkvæmt jafnri réttindaávinnslu og 65 ára lífeyristökualdri og hins vegar réttindum sjóðfélaga samkvæmt aldurstengdri réttindaávinnslu og 67 ára lífeyristökualdri. Auk þess verði  fjármagn lagt í sérstakan varúðarsjóð.

Jafnframt mun ríkið taka yfir skuldbindingar sveitarfélaga til A-deildar sjóðsins fyrir um 23,6 milljarða króna. Þó munu sveitarfélögin eftir sem áður bera kostnað vegna A-deildar lífeyrissjóðsins Brúar sem eykur hreinar skuldir sveitarfélaganna til muna.

Virkir sjóðfélagar halda sínum réttindum

Með lagabreytingunni er leitast við að bæta sjóðfélögum upp það tjón sem þeir verða fyrir þegar réttindaávinnslu þeirra verði breytt úr jafnri ávinnslu í aldurstengda og lífeyristökualdur hækkaður í 67 ár.

Er það gert með greiðslu fyrrnefnds lífeyrisauka vegna virkra greiðenda í A-deild við samþykkt frumvarpsins og munu því þeir sjóðfélagar sem voru virkir síðustu 12 mánuði fyrir gildistöku halda þeim réttindum sem þeir voru búnir að ávinna sér óbreyttum.

Ný réttindi áunnin í samræmi við aldur

Munu þeir síðan ávinna sér réttindi í samræmi við nýjar aldurstengdar réttindatöflur og 67 ára lífeyrisaldur, en lífeyrisaukinn er reiknaður árlega og honum bætt við réttindi þeirra til að bæta þeim mismuninn.

Að auki verði fjármagn lagt í varúðarsjóð sem komi til nánari tryggingum ef framlagið stendur ekki undir skuldbindingum vegna lífeyrisauka.