Tel Avív í Ísrael er orðin dýrasta borg í heimi samkvæmt hálfsárslegrar skýrslu Economist Intelligent Unit (EIU). Um er að ræða fyrsta skipti sem Tel Avív situr í efsta sæti á lista yfir dýrustu borgir heims en ísraelska borgin var í fimmta sæti fyrir ári síðan.

Ástæðan fyrir því að Tel Avív hoppaði upp um nokkur sæti á milli ára skýrist helst af styrkingu sikilsins, gjaldmiðils Ísraels, sem EIU rekur til vel heppnaðrar dreifingar á Covid-19 bóluefnum. Í byrjun nóvember hafði virði sikilsins á móti dollaranum hækkað um 4% á ársgrunni.

París var í efsta sæti á síðasta lista en situr nú í öðru sæti. Kaupmannahöfn er í áttunda sætinu. Róm féll um flest sæti á listanum þökk sé minni kostnaði matvara og fatnaði, samkvæmt CNBC .

EIU heldur utan um verðlag á meira en 200 vörum og þjónustum í 173 borgum. Verðbólgustigið á þessum liðum nam 3,5% í september 2021, samanborið við 1,9% á sama tíma árið 2020. Röskun á aðfangakeðjum, sveiflur á gengi gjaldmiðla og og breytt kauphegðun liggur að baki aukinnar verðbólgu. Samgönguliðurinn hækkaði mest í vísitölu EIU en verð á hvern lítra af bensíni hækkaði um 21% að meðaltali árið 2021.

Tíu dýrustu borgir heims samkvæmt EIU:

  1. Tel Aviv, Ísrael
  2. París, Frakkland
  3. Singapúr
  4. Zurich, Sviss
  5. Hong Kong
  6. New York, Bandaríkin
  7. Genf, Sviss
  8. Kaupmannahöfn, Danmörk
  9. Los Angeles, Bandaríkin
  10. Osaka, Japan