Lánsveitingar til Íslands munu tefjast um sinn eftir að ekki náðist að semja um endurgreiðslur upp á 2,3 milljarða Sterlingspunda til Breta og Hollendinga vegna Icesave reikninganna.

Þannig byrjar frétt breska blaðsins Daily Telegraph þar sem fram kemur að Íslendingar sé ekki tilbúnir að samþykkja hversu mikið landið skuldar vegna falls Landsbankans og að breska fjármálaráðuneytið hafi þurft að „bjarga“ um 300 þúsund sparifjáreigendum í október 2008.

Í frétt blaðsins, sem birt var á vef þess í gærkvöldi, kemur fram að bæði Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) og Svíar hafi gefið í skyn í gær að hendur þeirra væru bundnar þar sem ólíklegt mætti þykja að samkomulag um Icesave myndi nást áður en næsta endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands og IMF, sem fram átti að fara í lok þessa mánaðar, færi fram.

Haft er eftir Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóra IMF að aðstoð sjóðsins væri ekki háð Icesave deilunni en hann myndi þó hlusta ef aðildarþjóðir IMF myndu hreyfa við mótmælum.

„Ef margir meðlimir [aðildarþjóðir IMF] telja að við ættum að bíða, þá verðum við að bíða,“ er haft eftir Strauss-Kahn.

Þá segir blaðið jafnframt að Svíar muni hika í málinu. „Við viljum að Íslendingar standi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar og þá munu við standa við okkar eigin loforð,“ var haft eftir Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svíþjóðar.