Í umræðum um kreppuna hér á landi hefur viðkvæðið gjarna verið að ekki sé til nein töfralausn, en margir hafa þó horft til Evrópusambandsins og evrunnar.

Í grein eftir Ambrose Evans-Pritchard, ritstjóra alþjóðaviðskipta á Telegraph, er málið litið allt öðrum augum. Evans-Pritchard segir krónuna hafa verið sem töfrasprota hér á landi og hennar vegna muni Ísland ná sér miklu fyrr upp úr kreppunni en mörg önnur lönd og nefnir hann Írland og Lettland sem dæmi. Hið fyrrnefnda notar evruna en hið síðarnefnda er tengt við evruna og býr sig undir upptöku hennar.

Telur Ísland rísa hraðar en önnur lönd

Evans-Pritchard sér mikla erfiðleika í Evrópu og nefnir til að mynda svimandi tölur um atvinnuleysi ungs fólks í ýmsum Evrópuríkjum. Hér á landi segir hann að vegna krónunnar hafi skellurinn orðið meiri en að landið muni einnig rísa mun hraðar.

Í því sambandi nefnir hann hve viðskiptajöfnuður hafi batnað hratt í samanburði við önnur lönd og vísar einnig í spár um hagvöxt í samanburði við spár fyrir önnur lönd.

Lýsir furðu á lánshæfismatsfyrirtækjum

Hann segist furða sig á að lánshæfismatsfyrirtæki skuli enn tala um að lækka lánshæfismat Íslands niður í ruslflokk. Landið ætti að hans sögn að koma út úr þessu með opinberar skuldir á bilinu 80-100% af landsframleiðslu, svipað og Bretland.

Þar við bætist að Ísland búi við best fjármagnaða lífeyrissjóðakerfi í heimi með eignir upp á 120% af landsframleiðslu. Þetta tvennt saman sé það sem skipti máli.

Stormurinn verður genginn yfir áður en kosið verður um ESB-aðild

Í ótta sínum, segir Ambrose Evans-Pritchard, hafa Íslendingar litið vonaraugum til öryggis Evrópusambandsaðildar. Alþingi hafi samþykkt að fara í aðildarviðræður, en stormurinn verði genginn yfir löngu áður en kosið verði um aðild eftir tvö til þrjú ár. Þá muni atvinnuleysissprengjan, eins og hann orðar það, hafa sprungið í Evrópu. Og hann klykkir út með þessum orðum: "Reynið þá að selja öryggið í Evrópu."

Greinin í Telegraph