Breska blaðið The Daily Telegraph fjallar í dag um stjórnarskiptin á Íslandi sem blaðið segir að fari fram í kjölfar ofbeldisfullrar mótmælaöldu sem leitt hafi til falls miðju-hægri ríkisstjórnar Geir H. Haarde.

Þá segir blaðið að Jóhanna Sigurðardóttir verði fyrst opinberi samkynhneigði þjóðarleiðtoginn sem myndi ríkisstjórn í heiminum.

En Telegraph snýr sjónum sínum til Brussel og hefur eftir embættismönnum þar að Ísland geti gengið inn í Evrópusambandið, ásamt Króatíu í lok næstar árs ef „litla eldfjallaeyjan“ ákveður að sækja um, eins og það er orðað í frétt blaðsins. Þannig geti Ísland í raun tekið hraðleiðina inn í ESB.

Blaðið segir Jóhönnu vera hlynnt inngöngu Íslands í ESB og muni líkast til leiða Ísland inn í sambandið. Blaðið telur líklegt að tekist verði á um málið í kosningum sem blaðið segir að muni fara fram í vor.