Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Baugs reynir nú að selja húsgögn af skrifstofum félagsins í Lundúnum en þau eru metin á þúsundir Sterlingspunda, mörg hver eftir frægustu tískuhönnuði.

Frá þessu er greint á vef breska blaðsins The Daily Telegraph í kvöld.

Í umfjöllun blaðsins kemur fram að núverandi og fyrrverandi starfsmönnum Baugs, sem nýlega var flestum sagt upp störfum, býðst að kaupa húsgögnin sem metin eru á um 15 þúsund pund.

Meðal þess sem er til sölu eru stólar teiknaðir af danska arkitektinum Arne Jacobsen, skrifborð hönnuð af Terence Conran, svartlökkuð kommóða og fleira.

Fram kemur í umfjöllun blaðsins að Jón Ásgeir og eiginkona hans, Ingibjörg Pálmadóttir hafi nýlega keypt húsgögnin af tilsjónarmönnum Baugs en sem kunnugt er fór Baugur og breska félagið BG Holding (sem fer með eignir Baugs í Bretlandi) í greiðslustöðvun. Þegar félög fara í greiðslustöðvun í Bretlandi eru venjan sú að endurskoðunarskrifstofum er falið að sjá um rekstur félaganna og er þeim heimilt að selja eignir úr félaginu, svo að segja eftir vild.

Telegraph segir að Jón Ásgeir og Ingibjörg hafi ekki not fyrir húsgögnin sjálf og hafi því ætlað að selja starfsfólki það sem eftir er. Ekki kemur fram hvað þau greiddu fyrir húsgögnin en blaðið hefur eftir Gunnari Sigurðssyni, forstjóra Baugs  að enginn sé að hagnast á viðskiptunum.

Blaðið segist hafa undir höndum tölvupóst frá Herði Loga Hafsteinssyni, starfsmanni Baugs sem sent var á núverandi og fyrrverandi starfsmenn. Þar komi fram að þau hjón, Jón Ásgeir og Ingibjörg hafi ákveðið að selja húsgögnin sem þau keyptu af skrifstofunni.

Á meðal þess sem er til sölu er 21 borð sem á að kosta 300 pund hvert, 22 skrifborðsstólar á 200 pund hvern og fjórir hægindastóla á 300 pund hver. Þá er einnig til sölu móttökuborð og þrjú svört borð með speglum og rafmagnsinnstungum á 300 pund hvert.

Eins og fyrr segir var tölvupósturinn einnig sendur á fyrrverandi starfsmenn Baugs sem blaðið segir rúmlega 20 manns. Ekki eru þeir allir jafn sáttir við tilboðið og einn þeirra segir við blaðið að hann líti á tölvupóstinn sem óvelkominn ruslpóst.

Sjá umfjöllun Telegraph í heild sinni.