Hrun Baugsveldisins virðist ekki hafa mikil áhrif á lífsstíl Jóns [Ásgeirs] Jóhannessonar en íslenski viðskiptamaðurinn sást nýlega með konu sinni, Ingibjörgu Pálmadóttur skella í sig nokkrum drykkjum á veitingastaðnum Suka á Sanderson hótelinu í V-Lundúnum.

Það er ljóst að það eru ekki bara viðskiptablaðamenn í Bretlandi sem fjalla um Baug og Jón Ásgeir því þetta kemur fram í litlum slúðurmola í breska blaðinu The Telegraph í dag, svokölluðum Mandrake mola sem segir parið hafa verið nokkuð ánægt og svo virtist sem þau væru yfir höfuð áhyggjulaus.

„Heima fyrir hafa þau hins vegar ekki mikið til að hlæja yfir,“ segir í blaðinu og er rifjað upp nýlegt atvik þar sem kalla þurfti til lögreglu á 101 hótel í Reykjavík, sem er í eigu Ingibjargar, eftir að svokallaðir mótmælendur veittust að Jóni Ásgeiri fyrir utan hótelið.