Mikil reiði er meðal þingmanna á Íslandi vegna skilmála í bresku láni til Íslands vegna Icesave upp á 3,3 milljarða punda á „háum vöxtum upp á 5%“.

Þetta kemur fram í frétt Telegraph þar sem segir að breska fjármálaráðuneytið hafi gripið inn í og greitt viðskiptavinum Icesave við fall Landsbankans, en að „hin örsmáa norræna þjóð“ hafi fallist á að endurgreiða hverjum innstæðueiganda allt að 22.000 evrur.

Í frétt Telegraph er fjallað um það að Ísland eigi á hættu að falla enn frekar niður í lánshæfismati og fara niður fyrir það sem kallað er fjárfestingarstig. Haft er eftir Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, að hann hafi áhyggjur og að fólk úr fjármálaráðuneytinu og Seðlabankanum sé að ræða þetta við lánshæfismatsfyrirtækin.