Sunday Telegraph segir frá því í dag að íslensk stjórnvöld reyni nú að koma í veg fyrir hrun efnahagskrefisins hér á landi.

Haft er eftir ónafngreindum heimildarmanni blaðsins að Ísland sé nú meðhöndlað eins og eitraður vogunarsjóður. Bankar og fyrirtæki í þessu litla landi hafi skuldsett sig til að fá hærri arðsemi og hafi færst of mikið í fang. Skuldsetningin auki tapið og enginn vilji koma nálægt þessu lengur.

Telegraph hefur eftir Geir Haarde forsætisráðherra að skuldatryggingaálag bankanna sé ekki réttlætanlegt miðað við stöðu þeirra.

Sögusagnir um Kaupþing

Blaðið segir að sögusagnir hafi verið á kreiki um að Kaupþing [ KAUP ] verði þjóðnýtt, líkt og verið hafi um Halifax Bank of Scotland (HBOS). Stjórnendur bankans og stjórnvöld neiti því hins vegar að hann eigi í lausafjárerfiðleikum.

Blaðið segir einnig frá því að Robert Tchenguiz, sem m.a. eigi stóran hlut í Sainsbury, hafi tapað miklu og hann sé aðeins einn af um 15 af stærstu viðskiptavinum Kaupþings sem hafi tapað miklu á lækkunum síðastliðið ár. Kaupþing hafi fjármagnað mikið af kaupum þeirra og tapið valdi auknu álagi á bankann.

Ekki rætt við Kaupþing

Viðskiptablaðið ræddi við Jónas Sigurgeirsson framkvæmdastjóra samskiptasviðs Kaupþings vegna þessa og sagði hann að frétt Telegraph væri uppfull af rangfærslum og að ekki hefði verið haft samband við Kaupþing við vinnslu fréttarinnar. Hann sagði að vangaveltur um þjóðnýtingu væru fráleitur hugarburður.