Verslunarkeðjan Merlin, sem er í eigu íslenskra fjárfesta, hefur gert samning við danska farsímafyrirtækið Telia um að selja einungis síma frá þeim, segir í frétt á vefsíðu Berlingske Tidende í dag.

48 raftækjaverslanir Merlin eru þessa dagana að búa verslanir sínar undir breytingar, sem fela það m.a í sér að koma upp skiltum í öllum gluggum verlsunarkeðjunnar með Telia símum.

Í fréttinni er haft eftir Claus Mikkelsen, innkaupsstjóra Merlin að samningurinn geri það að verkum að sölumenn Merlin verði betur í stakk búnir að veita ráðleggingar um farsímakaup, þar sem þeir muni framvegis hafa sérþekkingu á Telia farsímunum.