TM Software hefur þróað lausn fyrir nýjan vef fjarskiptafélagsins Teliasonera, sem er eitt stærsta fjarskiptafélag Norðurlanda.

Vefurinn ber heitið Innovation World og gerir lausnin viðskiptavinum mögulegt að finna leiðbeiningar og svör og starfsfólki að halda utan um þekkingargrunn vefjarins. Þá inniheldur lausnin einnig feril fyrir þjónustufulltrúa til að meðhöndla fyrirspurnir sem berast frá viðskiptavinum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nýherja, móðurfélagi TM Software en TeliaSonera er ört vaxandi fjarskiptafélag og býður fjarskiptaþjónustu í Skandinavíu, Eystrasaltsríkjunum og víðar.

„TeliaSonera ákvað að velja TM Software því lausn félagsins, sem byggir á Microsoft Dynamics CRM, var tilbúin og hægt að innleiða með litlum fyrirvara. Þá er hún hýst hjá Skyggni, systurfélagi okkar“, segir Sigurður Hilmarsson forstöðumaður hjá TM Software í tilkynningunni.

„TeliaSonera lagði mikla áherslu á að viðskiptavinir gætu fundið upplýsingar sjálfir á auðveldan hátt en jafnframt að hin mannlega snerting væri einnig til staðar og að starfsmenn gætu fundið réttu svör með lítilli fyrirhöfn.”

Fram kemur að verkefnið var unnið með Vias Consulting í Svíþjóð sem er samstarfsaðili TM Software í þjónustulausnum fyrir sænska markaðinn.

„Við erum afar bjartsýn á framgang þessarar lausnar því hún hefur þegar verið kynnt fjölda fyrirtækja í Svíþjóð og erum við að hefja kynningu á henni hér á landi fyrir íslensk fyrirtæki,” segir Sigurður.